Íslenska kvennalandsliðið vann í dag sannfærandi sigur á Írum á Algarve mótinu 4-1. Íslenska liðið byrjaði mjög vel í leiknum og komst yfir á sjöundu mínútu með marki frá Erlu Steinu Arnardóttur.
Margrét Lára Viðarsdóttir bætti við öðru marki íslenska liðsins aðeins fimm mínútum síðar og Sara Björk Gunnarsdóttir skoraði þriðja markið á 18. mínútu.
Írska liðið minnkaði muninn á 23. mínútu leiksins en Margrét Lára innsiglaði sigur íslenska liðsins skömmu fyrir hlé með öðru marki sínu. Síðari hálfleikurinn var öllu rólegri og leiknum lauk því 4-1 eins og áður sagði.
Íslenska liðið er því komið áfram á mótinu eftir að hafa lagt Pólverja í fyrsta leiknum 2-0.