Körfubolti

NBA í nótt: Yao öflugur í sigri Houston á Cleveland

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
LeBron James náði ekki að leiða sína menn til sigurs gegn Yao Ming og félögum.
LeBron James náði ekki að leiða sína menn til sigurs gegn Yao Ming og félögum. Nordic Photos / Getty Images

Houston Rockets vann í nótt góðan sigur á Cleveland Cavaliers í NBA-deildinni í körfubolta, 92-77.

Kínverjinn Yao Ming var sérstaklega öflugur í leiknum og skoraði 22 stig auk þess sem hann tók niður tólf fráköst.

Houston hefur verið á góðri siglingu undanfarið en þetta var fimmti sigur liðsins í röð og sá níundi í síðustu tíu leikjum liðsins.

Tracy McGrady hafði hægt um sig í leiknum og skoraði átta stig. Sjálfsagt hafði það eitthvað að segja að hann eyddi gærdeginum á spítala vegna sýkingar í öndunarfærum.

Rafer Alston var með sautján stig og níu stoðsendingar fyrir Houston og Shane Battier fimmtán stig.

LeBron James var stigahæstur leikmanna Cleveland með 32 stig en hann var í raun sá eini sem ógnaði af einhverju ráði í sóknarleik liðsins.

Chicago vann sex stiga sigur á Golden State, 114-108. Chris Duhon bætti persónulegt met er hann skoraði 34 stig í leiknum en Joe Smith bætti við 27 stigum fyrir Chicago.

Stigahæstur hjá Golden State var Monta Ellis með 25 stig og Baron Davis var með 22 stig. Chris Webber lék með liðinu á nýjan leik og skoraði fjögur stig.

Philadelphia vann auðveldan sautján stiga sigur á Miami, 101-84. Andre Iguodala var með 25 stig og Andre Miller 21. Hjá Miami var Dwyane Wade stigahæstur með nítján stig og níu stoðsendingar.

Þetta var sjötti tapleikur Miami í röð og sá 21. af síðustu 22 leikjum liðsins.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×