Fótbolti

Eiður skoraði í stórsigri Börsunga

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eiður Smári fagnar marki sínu í kvöld.
Eiður Smári fagnar marki sínu í kvöld. Nordic Photos / AFP

Eiður Smári Guðjohnsen skoraði fyrsta mark Barcelona í 4-0 sigri liðsins á Real Murcia í spænsku úrvalsdeildinni í kvöld. Samuel Eto'o skoraði tvö mörk í kvöld og Bojan Krkic eitt.

Markið skoraði Eiður á 26. mínútu. Gianluca Zambrotta fékk boltann á hægri kantinum, gaf fyrir markið þar sem Eiður kom aðvífandi og stýrði boltanum laglega í markið.

Eiður átti mjög góðan fyrri hálfleik og var mikið í boltanum. Hann lék á miðjunni ásamt Rafael Marquez og Xavi en í sókninni voru þeir Bojan Krkic, Thierry Henry og Samuel Eto'o.

Bojan skoraði svo annað mark leiksins á 52. mínútu eftir undirbúning Henry.

Frank Rijkaard skipti svo Eiði út af á 66. mínútu en Andrés Iniesta kom inn á í hans stað.

Henry lagði svo upp annað mark, í þetta sinn fyrir Samuel Eto'o á 77. mínútu. Henry fékk þá langa sendingu inn fyrir vörn Murcia frá Sylvinho og lagði boltann einfaldlega á Eto'o sem átti ekki í vandræðum með að skora.

Zambrotta fékk svo algjört dauðafæri á 85. mínútu er boltinn barst á hann frá Eto'o en skot hans hafnaði í stönginni.

Eto'o var svo sjálfur að verki þegar hann skoraði fjórða mark Börsunga tveimur mínútum síðar. Varamaðurinn Giovanni dos Santos vann einvígi við varnarmann Murcia og lagði upp markið fyrir Eto'o.

Þetta var síðasti leikur hans fyrir Afríkukeppnina en Eto'o er leikmaður landsliðs Kamerún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×