Bretinn Joe Calzaghe vann í nótt sigur á Bandaríkjamanninum Bernard Hopkins í Las Vegas þó svo að hann hafi verið sleginn niður í fyrstu lotu.
Hopkins náði að slá Calzaghe niður með þungu hægrihandarhöggi og átti sá breski í vandræðum til að byrja með.
En eftir því sem leið á bardagann náði Calzaghe sér á strik og þurfti úrskurð dómara til að ákveða sigurvegara.
Einn dómaranna dæmdi Hopkins sigur, 114-113, en hinir tveir dæmdu Calzaghe í vil, 115-112 og 116-111.
Calzaghe er því enn ósigraður í 45 bardögum en Hopkins, sem er 43 ára gamall, hefur nú unnið 48, gert eitt jafntefli og tapað fimm.
„Þetta var einhver erfiðasti bardaginn á ferlinum mínum," sagði Calzaghe. „Ég var ekki upp á mitt besta og þetta var ekki fallegur bardagi en ég vann."
„Ég geri út af við goðsagnir. Ég er nýbúinn að klára B-Hop, kannski að Roy Jones sé næstur."

