Stúlkurnar sem unnu til verðlauna í boðhlaupum með Marion Jones í bandaríska landsliðinu á ÓL í Sidney fyrir átta árum þurfa allar að skila verðlaunapeningum sínum.
Þetta tilkynnti Alþjóða Ólympíunefndin í yfirlýsingu í dag, en Marion Jones viðurkenndi fyrir nokkru að hún hefði notað stera fyrir leikana um aldamótin.
Jones og stöllur hennar unnu til bronsverðlauna í 4x100 metra hlaupi og silfurverðlauna í 4x400 metra hlaupi.
Stúlkurnar geta áfrýjað þessari niðurstöðu, en Alþjóða Ólympíunefndin hefur þegar beðið bandarísku ÓL-nefndina að skila verðlaununum.