Erlent

Óttast fjöldasjálfsmorð sértrúarsafnaðar í Danmörku

Óli Tynes skrifar
Ruth Evensen, leiðtogi safnaðarins.
Ruth Evensen, leiðtogi safnaðarins. MYND/Nyhedsavisen

Dóttir leiðtoga sértrúarsafnaðar í Danmörku óttast að móðir hennar muni leiða safnaðarbörnin í fjöldasjálfsmorð. Guðfræðingur sem er sérfróður um málefni nýtrúarsafnaða er á sama máli.

Ruth Evensen hefur um árabil leitt söfnuðu sem kallast Hús föðurins. Yfirvöld hafa á honum illan bifur en hafa ekkert getað aðhafst þar sem trúfrelsi ríkir í Danmörku.

Soffía Evensen, dóttir Ruth, segir að söfnuðurinn sé á barmi gjaldþrots og mikil örvænting hafi gripið um sig.

Áttatíu safnaðarmeðlimir hafa nú einangrað sig inni á hóteli á Lálglandi, með leiðtoganum og tekið börn sín úr skóla.

Soffía segir að undanfarin misseri hafi söfnuðurinn verið mjög upptekinn af píslarvætti. Sýndar séu kvikmyndir um píslarvætti og það kennt af bókum.

Fólkið sé spurt um hvort það vilji gerast píslarvottar fyrir Kristi, hvort það vilji láta krossfesta sig með höfuðið niður.

Það hefur lengi verið fátt með þeim mæðgum og Soffía hefur skrifað bókina "Illska - Ruth stal lífi mínu," um uppvaxtarár sín.

Guðfræðingurinn Tom Thygesen Fredriksen, sem er sérfræðingur í nýtrúarsöfnuðum segir í viðtali við danska blaðið BT að fjöldasjálfsmorð sé vissulega möguleiki.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×