Teitur Þórðarson, þjálfari Vancouver Whitecaps, sat fyrir svörum í dálknum spurt og svarað hjá kanadíska dagblaðinu The Province í gær en þar kom meðal annars fram að honum líkar lífið vel í Vancouver og saknar ekki vindsins á Íslandi.
„Vancouver er sér í lagi frábær borg fyrir okkur sem erum í fótboltanum því þar er aldrei vindasamt. Það er ekki raunin á Íslandi, því þar er alltaf vindur," segir Teitur.
Í viðtalinu kemur einnig fram að Teitur hafi orðið fyrir stríðni á skrifstofu Vancouver Whitecaps á dögunum þegar Íslendingar töpuðu á heimavelli gegn Skotlandi í undankeppni HM 2010.
„Ég gerði mér ekki grein fyrir því að helmingur starfsfólksins á skrifstofunni væri af skoskum ættum. Þetta var sérstök upplifun," segir Teitur.