Dr. Kári Stefánsson hjá DeCode hristi upp í aðalfundi Hrossaræktarsamtaka Suðurlands sem fram fór á Þingborg í Flóahreppi í síðustu viku. Bændablaðið greinir frá því að Kári hafi „fjarflutt" erindi, en honum var varpað upp á vegg með aðstoð tækninnar. Meðal annars sagði Kári að hestamennskan væri sú íþrótt sem mest hefði hnignað í 1.100 ára sögu þjóðarinnar, menn mættu helst á landsmót til þess að detta í það. Ef til vill var eins gott að Kári var fjarri ef lesið er milli lína í frásögn Bændablaðsins. Enginn tjáði sig þó opinberlega um skoðanir hans, utan Guðlaugur Antonsson hrossaræktarráðunautur, sem „gaf lítið fyrir erindi Kára og var honum meira og minna ósammála í öllu".
Fjármögnun á yfirdrættiIcelandic Group tilkynnti í gær að það ætlaði að leggja fyrir hluthafafund tillögu um að gefa út skuldabréf í evrum að andvirði 5 milljarðar króna með 23 prósenta föstum ársvöxtum. Uppleggið sýnir hve dýrt það er orðið að fjármagna starfsemi félaga eins og Icelandic, sem þegar er mjög skuldsett. Orðrómurinn á markaðnum hefur verið sá að hlutur flestra muni þynnast út og Björgólfur Guðmundsson muni á endanum eignast félagið þegar skuldabréfunum verði breytt í hlutabréf á gengingu einum. Það skýri svo fall Icelandic í Kauphöllinni síðustu daga, en bréf félagsins hafa lækkað um meira en 36% á sjö dögum. Með þessu á að reyna að bjarga þessu gamalgróna fyrirtæki fyrir horn.