Skoðun

Um galskap og skynsemi

Árni Páll Árnason skrifar
Í Silfri Egils á sunnudag lét ég þau orð falla að það væri hreinn galskapur að lækka nú tekjuskatt með almennri 2% skattalækkun, eins og leiðarahöfundur Viðskiptablaðsins hefur t.d. kallað eftir. En hvers vegna?

Við höfum á undanförnum árum búið við allt of mikla verðbólgu sem má fyrst og fremst rekja til gríðarlegrar einkaneyslu. Sú staðreynd – og áhrif erlendra spákaupmanna – hafa þrýst gengi krónunnar í hæstu hæðir, skaðað samkeppnisgreinar, lagt í rúst sjávarútveg vítt og breitt um landið og aukið á ærinn vanda í atvinnumálum. Verðbólgan hefur rýrt kaupmátt allra þeirra hópa sem búa við taxtalaun og ekki hafa notið launaskriðs og þá sérstaklega þeirra sem starfa í skólakerfi og heilbrigðisþjónustu. Misráðnar og illa tímasettar stjórnvaldsákvarðanir og skattalækkanir á undanförnum árum hafa aukið á þennan vanda.

Nú er komið að tímamótum. Aðgengi að lánsfé hefur dregist saman. Stýrivaxtahækkanir eru loksins farnar að hafa áhrif á markaðsvexti. Almenn skattalækkun á þessum tímapunkti yrði einungis til að kynda á ný undir þenslu í samfélaginu og draga úr virkni þeirrar aðlögunar hagkerfisins sem átt hefur sér stað á síðustu mánuðum.

Við þurfum að skapa aðstæður fyrir stöðugra efnahagsumhverfi, þar sem Seðlabankanum gefst kostur á að lækka stýrivexti í hröðum og öruggum skrefum. Þar eru hóflegar launahækkanir í almennum kjarasamningum lykilatriði. Jafnframt á að beita skattkerfisbreytingum til að vernda og bæta kaupmátt þeirra sem minnst hafa milli handanna og þeirra stétta sem ekki hafa notið launaskriðs á undanförnum árum. Við búum við veikt umhverfi peningamála og óskilvirka stýrivaxtastefnu. Þess vegna hafa stýrivextir verið allt of háir allt of lengi. Eftir miklar fórnir vegna þessarar vaxtastefnu eygjum við nú möguleika á að endurheimta stöðugleikann. Það er óðs manns æði að setja þann árangur í hættu með flatri skattalækkun sem brennur á verðbólgubáli áður en við er litið.

Höfundur er alþingismaður Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi.




Skoðun

Sjá meira


×