Körfubolti

Markmiðið er að koma liðinu í A-deild

Ágúst Björgvinsson ætlar sér stóra hluti með kvennalandsliðið
Ágúst Björgvinsson ætlar sér stóra hluti með kvennalandsliðið Mynd/Stefán Karlsson

Ágúst Björgvinsson skrifaði í dag undir fjögurra ára samning við KKÍ og mun stýra kvennalandsliðinu næstu fjögur árin. Hann er mjög spenntur fyrir verkefninu.

"Ég var mjög spenntur þegar mér var boðið að taka við liðinu og þekki flestar þessar stelpur mjög vel frá því ég var með yngra landsliðið og hinar eftir að hafa þjálfað á móti þeim þegar ég var hjá Haukum, þannig að ég veit nokkurn veginn hvað þær geta og geta ekki. Ég held að sé hægt að gera mjög flotta hluti með þetta lið, en ég held að það velti líka mikið á því að þessir eldri leikmenn í hópnum gefi kost á sér og séu tilbúnir í þessi verkefni. Það verður erfitt að fara á mót með of ungt lið, af því liðið er frekar ungt. En ég vona að sem flestir leikmennirnir gefi kost á sér í þetta verkefni," sagði Ágúst.

Ágúst ætlar að leggja mikið upp úr stífum æfingum eins og hann hefur gert þar sem hann hefur verið við stjórnvölinn og á því verður engin breyting nú. "Það eru alltaf einhverjar fórnir sem þarf að færa ef maður ætlar að gera eitthvað sem enginn hefur gert áður. Ég mun láta liðið æfa stíft yfir sumartímann en við munum líka hittast fljótlega og fara yfir þetta svo allir geti fengið sitt sumarfrí. Leikmennirnir þurfa að skipuleggja sig mjög vel til að þetta gangi upp," sagði Ágúst.

Fyrsta verkefni kvennalandsliðsins verður Norðurlandamótið næsta sumar. "Þjóðir eins og Svíar og Finnar eru auðvitað talsvert fyrir framan okkur eins og staðan er í dag, en við munum reyna að fara í þetta mót til að gera okkar besta. Aðalmarkmið okkar verður að bæta árangur síðustu ára og reyna að bæta liðið jafnt og þétt. Það er hægt að ná bætingum þó það skili sér kannski ekki endilega í úrslitum. Ég er búinn að taka að mér fjögurra ára verkefni og langtímamarkmiðið hjá mér er að verða búinn að koma liðinu í A-deild á þeim tíma," sagði Ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×