Eiður Smári Guðjohnsen staðfesti nú í kvöld í samtali við Vísi að hann ætlaði sér að spila áfram með íslenska landsliðinu sem og að klára tímabilið með Barcelona.
Síðar í kvöld verður birt ítarlegt viðtal við Eið Smára þar sem hann gerir upp árið sem hefur verið ansi kaflaskipt hjá honum.
Hann sagði að honum lítist afar vel á nýjan landsliðsþjálfarann, Ólaf Jóhannesson, og að hann muni áfram gefa kost á sér í landsliðið.
Eiður sagði einnig að hann væri ekki á leið frá Barcelona þegar félagaskiptaglugginn opnar um áramótin en hann hefur ítrekað verið orðaður við önnur lið víða um Evrópu á þessu ári.