Fótbolti

Eiður hafði hægt um sig í grannaslagnum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eiður Smári í baráttu við Jarque, leikmann Espanyol í kvöld.
Eiður Smári í baráttu við Jarque, leikmann Espanyol í kvöld. Nordic Photos / AFP

Espanyol og Barcelona gerðu í kvöld 1-1 jafntefli í spænsku úrvalsdeildinni í fótbolta. Eiður Smári Guðjohnsen lék fyrstu 72 mínútur leiksins og hafði hægt um sig.

Andrés Iniesta kom Börsungum yfir strax á sjöttu mínútu eftir undirbúning Lionel Messi.

Leikmenn Barcelona voru talsvert frá sínu besta í kvöld og náði varamaðurinn Coro að jafna metin fyrir Espanyol á 69. mínútu, aðeins fimm mínútum eftir að hann kom inn á.

Á 64. mínútu fór Bojan Krkic út af og Ronaldinho kom inn á. Eiður Smári fór þá í fremstu víglínu en var svo skipt út af á 72. mínútu fyrir Santi Ezquerro. Þetta var fyrsti leikur Ezquerro á tímabilinu en Börsungar eiga við mikil meiðsli að stríða í sínum herbúðum.

Leikmenn Barcelona reyndu hvað þeir gátu til að skora sigurmarkið á lokamínútum leiksins en allt kom fyrir ekki.

Fyrr í kvöld tapaði Sevilla óvænt fyrir Almería á útivelli, 1-0. Acasiete skoraði sigurmark leiksins á 88. mínútu.

Real Madrid vann hins vegar öruggan sigur á Racing Santander, 3-1. Raúl skoraði tvívegis en þess á milli skoraði Sánchez sjálfsmark. Munitis minnkaði svo metin um miðjan síðari hálfleik.

Real Madrid er á toppi deildarinnar með 32 stig en Barcelona og Villarreal koma næst með 28 stig. Villarreal getur minnkað muninn í eitt stig á morgun er liðið mætir Valladolid á útivelli.

Espanyol er í fjórða sæti með 26 stig en Sevilla er í ellefta sæti með fimmtán stig. Racing Santander er í sjöunda sæti með 23 stig en eftir sigur kvöldsins er Almería komið í tíunda sæti deildarinnar með sextán stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×