Fyrrum heimsmeistararnir Ricardo Mayorga og Fernando Vargas háðu blóðuga baráttu í hnefaleikahringnum í nótt þegar þeir áttust við í Staples Center í Los Angeles.
Það var að lokum Mayorga sem hafði betur á stigum eftir að hafa lamið Vargas í strigann í fyrstu og elleftu lotu. Vargas tilkynnti eftir bardagann að hann hefði verið sá síðasti, en hann er reyndar aðeins 29 ára gamall á meðan Mayorga er 34 ára.
Aðragandinn að bardaganum hafði verið með ljótara móti eins og verða vill í boxinu og höfðu þeir félagar verið duglegir við að rakka hvor annan niður í fjölmiðlum.
Þetta var fyrsti sigur Mayorga síðan hann tapaði fyrir Oscar de la Hoya fyrir einu og hálfu ári síðan.