Körfubolti

Charlotte og Orlando fara vel af stað

Dwight Howard var einráður í teignum í nótt með 24 stig og 15 fráköst
Dwight Howard var einráður í teignum í nótt með 24 stig og 15 fráköst NordicPhotos/GettyImages

Fjórir leikir fóru fram í NBA deildinni í körfubolta í nótt. Charlotte Bobcats lagði Portland 101-92 og hefur unnið 6 af fyrstu 10 leikjum sínum í vetur. Það er besti árangur þessa nýjasta félags í deildinni til þessa.

Gerald Wallace skoraði 27 stig fyrir Charlotte og Raymond Felton skoraði 24 stig og gaf 10 stoðsendingar, en Jarrett Jack var atkvæðamestur hjá Portland með 18 stig.

Orlando skellti New Orleans á útivelli 95-88 en rétt eins og í leiknum gegn Boston í fyrrinótt glutraði liðið niður um 20 stiga forskoti í leiknum. Orlando hefur nú unnið 10 af fyrstu 12 leikjum sínum og það er metjöfnun hjá félaginu. Dwight Howard var drúgur í teignum og skoraði 24 stig og hirti 15 fráköst og Rashard Lewis skoraði 19 stig.

Peja Stojakovic var stigahæstur hjá New Orleans með 21 stig, en liðið var án Chris Paul (ökklameiðsli) í leiknum og missti Tyson Chandler af velli meiddan á hné í nótt. Meiðsli hans eru þó ekki alvarleg og snýr hann væntanlega aftur eftir nokkra daga.

Utah Jazz rétti úr kútnum með því að leggja New Jersey Nets á heimavelli 102-75. Jazz hafði tapað tveimur í röð fyrir þennan sigur en tap Nets var það sjötta í röð. Vince Carter er enn meiddur hjá Nets.

Richard Jefferson var stigahæstur hjá gestunum með 22 stig, þar af 15 í fyrri hálfleik og Bostjan Nachbar skoraði 16 stig af bekknum. Deron Williams skoraði 20 stig fyrir Utah, Carlos Boozer 17 og þeir Mehmet Okur og Ronnie Brewer 14 hvor.

Loks vann Memphis auðveldan 125-108 sigur á Seattle. Delonte West skoraði 17 stig af bekknum fyrir Se4attle og Chris Wilcox skoraði 16, en Stromile Swift skoraði 24 stig fyrir Memphis, Mike Miller 19 og þeir Damon Stoudamire og Hakim Warrick 16 hvor.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×