Fótbolti

Eiður Smári: Hef enn ekki sýnt hvað í mér býr

Eiður Smári er óðum að ná sér á strik eftir meiðsli
Eiður Smári er óðum að ná sér á strik eftir meiðsli NordicPhotos/GettyImages

Eiður Smári Guðjohnsen segir það aldrei hafa komið til greina fyrir sig að fara frá Barcelona fyrir lokun félagaskiptagluggans og segist ætla að gera allt sem í hans valdi stendur til að sanna sig hjá félaginu.

"Ég er hjá Barcelona og ætla mér að vera áfram. Það er alveg á hreinu núna," sagði Eiður í samtali við spænska fjölmiðla, en hann var mikið orðaður við West Ham á tímabili. "Ég gat ekki farið frá félaginu af því ég var meiddur og ég vildi heldur ekki fara héðan án þess að hafa geta gefið allt sem ég hafði. Ef ég fer héðan - verður það ekki fyrr en ég hef sýnt hvað í mér býr sem knattspyrnumaður," sagði Eiður og útskýrði ákvörðun íslenska landsliðsins að tefla honum fram í leiknum við Norður-Íra.

"Ég talaði við lækna íslenska liðsins og þeir tóku ákvörðun í samráði við læknana á Spáni. Þeir fylgdust vel með batanum hjá mér og ákváðu svo að leyfa mér að spila aðeins í leiknum við Íra. Ég er fyrirliði liðsins og því er það skylda mín að spila ef ég mögulega get," sagði Eiður Smári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×