Í tengslum við Reykjavíkurmaraþon Glitnis 18. ágúst nk. verður í annað sinn efnt til Latabæjarhlaups sem er sérstaklega ætlað börnum 9 ára og yngri. Í ár munu þátttökugjöldin í hlaupinu renna óskipt til UNICEF - Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. Í fyrra hlupu um 4.200 börn og standa vonir til að a.m.k. jafnmargir hlaupi í ár. Þátttökugjaldið í ár er það sama og í fyrra eða 800 kr.
Ef þátttakan í ár verður jafngóð eða betri munu milljónir króna renna til UNICEF að hlaupi loknu. Að þessu sinni verður Latabæjarhlaupið á svæðinu fyrir framan aðalbyggingu Háskóla Íslands og búist er við þúsundum manna á svæðið. Stefán Ingi Stefánsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi segir að öllu söfnunarfénu verði varið í alþjóðlegan sjóð UNICEF sem nýtir fjármunina þar sem þörfin er mest hverju sinni.