Vörnin í Hafskipsmálinu byggðist á því að skoða þyrfti tekjur og gjöld í heild. Í dómi málsins frá 1991 var heildarmatskenningu algjörlega hafnað og sakborningar sakfelldir fyrir bókhaldsbrot. Það sama ætti að gera í Baugsmálinu. Þetta sagði Sigurður Tómas Magnússon settur saksóknari í morgun. Hann segir brot í Hafskipsmálinu sakleysisleg í samanburði við Baugsmálið.
Sigurður fjallaði almennt um þriðja kafla ákærunnar sem snýr að meintum bókhaldsbrotum Jóns Ásgeir Jóhannessonar og Tryggva Jónssonar. Hann sagði fyrirtæki Baugs og tengd Baugi hafi verið notuð til að auðvelda ýmsar bókhaldstilfæringar. Það hefði verið lúxus að geta leitað til fyrirtækja í útlöndum sem tengdust Baugi þar sem íslensk skattayfirvöld ættu erfiðara með að nálgast upplýsingar um þau.
Hann sagði eðli rangra tekjufærslna það að síðar þyrfti að bakfæra þær. tilviki Baugs hefði ekki verið ætlunin að raunverulegir fjármunir kæmu inn í félagið í tengslum við tekjufærslurnar. Í tilviki Baugs hefðu færslur árið 2000 undið upp á sig og orsakað frekari rangar færslur árið 2001. Tækifæri hefðu hins vegar skapast til að bakfæra tekjufærslur síðla árs 2001 og árið 2002.
Í dag fjallar saksóknari um meintan fjárdrátt Jóns Ásgeirs og Tryggva, meðal annars í tengslum við skemmtibátinn Thee Viking.