Fyrrverandi starfsmaður Íslenskrar erfðagreiningar var í dag dæmdur í tveggja mánaða fangelsi fyrir að stela gögnum frá Íslenskri erfðagreiningu. Dómurinn er skilorðsbundinn til tveggja ára. Verjandi mannsins segir niðurstöðuna byggða á misskilningi.
Jesus Sainz var í október ákærður fyrir að hafa með ólögmætum hætti afritað 29 skrár með rannsóknarniðurstöðum og viðskiptaleyndarmálum af netþjóni Íslenskrar erfðagreiningar. Dómur var kveðinn upp yfir honum í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Réttarhaldið var lokað og dómurinn verður ekki birtur opinberlega. Erla S. Árnadóttir er verjandi Sainz. Hún sagði í samtali við fréttastofu að dómnum yrði áfrýjað. Hún segir þau mjög ósátt við rökstuðninginn en í dóminum segir að sitthvað "bendi til þess að hann hafi haft ásetning til að miðla þessum gögnum til þriðja aðila." Erla segir dóminn ganga mjög langt í því að byggja á óljósum vísbendingum. Auk þess sé hann byggður á misskilningi um gildissvið fimmtugustu grein höfundarlaga.Jesus er einn af fimm fyrrum starfsmönnum sem Íslensk erfðagreining hefur sakað um stuld á rannsóknargögnum. Hinir eru í Bandaríkjunum og starfa þar hjá keppinauti erfðagreiningar, Barnaspítala Fíladelfíu. Málið gegn þeim hinum er rekið í Bandaríkjunum en þeir hafa ekki verið dæmdir.