Skoðun

Stundum hófsamar veiðar

Þórunn Sveinbjarnardóttir skrifar
Umræðan

Rjúpnaveiðar

Rjúpnaveiðitímabilið hófst í gær. Í haust verða veiðar á rjúpu eingöngu leyfðar í nóvembermánuði, fjóra daga vikunnar.

Þetta er gert í ljósi niður­stöðu rjúpnatalningar Náttúrufræðistofnunar Íslands sem sýndi að fækkað hefur í varpstofni rjúpunnar um 70.000 fugla frá því í fyrra. Við aðstæður sem þessar ber stjórnvöldum að gæta ítrustu varfærni við ákvörðun um veiðistjórnun og við því hefur verið brugðist með því að fækka veiðidögum úr 26 í 18. Auk þess verður griðlandi rjúpu á Suðvesturlandi viðhaldið og sölubanni á rjúpu og rjúpnaafurðum framlengt. Fækkun veiðidaga á ekki að koma niður á þorra skotveiðimanna. Breytingin mun hins vegar verst koma við þá fáu magnveiðimenn sem eftir eru.

Veiðikortakerfi það sem notað er við veiðistjórnun hér á landi hefur að mörgu leyti reynst vel. Engu síður hefur borið á því að skil veiðimanna á veiðiskýrslum dreifist nokkuð yfir árið. Það er hins vegar nauðsynlegt að skýrslurnar skili sér fyrr, það er að þær hafi allar borist að vori, svo að stjórnvöld geti unnið úr upplýsingunum og haft hliðsjón af þeim við ákvörðunartöku um rjúpnaveiði. Ég mun á næstunni beita mér fyrir breytingu á lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum til að svo megi verða.

Undanfarin ár hafa skotveiðimenn brugðist vel við óskum umhverfisráðuneytisins um hófsamar og ábyrgar veiðar. Rjúpnaskyttur bera mikla ábyrgð á því að vel takist til við veiðarnar í haust og eiga jafnframt mikilla hagsmuna að gæta að vel takist til. Ég vil þess vegna hvetja veiðimenn til þess að leggja sitt af mörkum og skjóta ekki fleiri rjúpur en þeir þurfa fyrir sig og sína. Þannig stuðla þeir að því að áfram verði gengið til rjúpna á Íslandi um ókomna framtíð. Að lokum óska ég veiðimönnum ánægjulegrar útivistar í íslenskri náttúru.

Höfundur er umhverfisráðherra.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×