Lúkas og Lassie 28. júlí 2007 00:01 Í samræðu við félaga minn um daginn var mér bent á ákveðna samsvörun milli hundsins Lúkasar og annars hunds sem er talsvert frægari, en gekk í gegnum dálítið svipaðar hremmingar, en það er tíkin Lassie sem vafraði um Skotland og niður til Englands í leit að upphaflegum eiganda sínum, öðlingspilti í Yorkshire, eftir að hafa verið seld til illra manna af fjárhagslegum ástæðum. LASSIE var reyndar að mínu mati nokkuð fallegra dýr en Lúkas, svo ég segi það bara hreint út og vonandi án þess að móðga neinn. Einnig má segja að sagan af Lassie sé út frá ákveðnum skáldlegum sjónarmiðum nokkuð tilkomumeiri en sagan af Lúkasi. Lassie lendir í alls kyns hremmingum en kemst jafnan út úr þeim með því að beita yfirburðagáfum og óviðjafnanlegum styrk í mótlæti. Ást hennar á piltinum góða, sem og tryggð hennar og hollusta við þá bláfátæku og tandurhreinu barnssál - sem var túlkuð svo eftirminnilega í bíómyndinni Lassie Come Home - fékk jafnvel hina kaldrifjuðustu stigamenn til þess að fella tár. MEÐ nokkrum einföldum samanburðaræfingum má halda því fram að hin meinlegu ævintýri Lúkasar, með hliðsjón af hinni hárómantísku og fögru sögu af Lassie, dragi fram nokkuð athyglisverða þætti í íslenskri þjóðarsál og ekki síður nútímanum í heild sinni, sem halda má fram að einkennist af vissri hnignun. HÉR höfum við hund og pilt. Einn augljós munur í söguþræði er sá að í tilviki Lúkasar er hinn bláeygi piltur alls ekki elskaður af hundinum heldur þvert á móti. Í hinni íslensku sögu er pilturinn vændur um það að hafa troðið aðalsöguhetjunni í íþróttatösku og drepið hana með spörkum. Fíkn nútímans í ljótleika og harðneskju kemur hér skýrt fram. Hrópandi óréttlæti einkennir líka þessa frásögn og í stað hins trausta sambands pilts og hunds einkennist sagan af Lúkasi af miklum og djúpstæðum misskilningi pilts og hunds - nærðum af fordómum hins stygga og hleypidómafulla netsamfélags - sem gerir það að verkum að þeir fá aldrei að kynnast á uppbyggilegan og ástríkan máta. SVIPAÐ má segja um samband Lúkasar og eiganda hans, sem í hinni íslensku sögu er kona. Í stað þess að leita eiganda síns, eins og Lassie, þá forðaðist Lúkas eiganda sinn og í stað þess að beita klókindum til þess að komast í fang hans, þurfti eigandinn að beita klókindum til þess að fá hann í fang sitt. Þetta lýsir firringu. JAFNFRAMT er það skýrt einkenni á sögunni af Lúkasi, og lýsir þjóðarsálinni vel, að þegar öllu er á botninn hvolft gerðist ekki neitt í þeirri sögu annað en það að lítill hundur varð hræddur og hljóp upp í Hlíðarfjall. Það er einkum þetta sem gerir söguna svo íslenska enda hefur það löngum verið vitað að þessi eyþjóð hefur ákveðinn hæfileika til þess, í viðvarandi tíðindaleysi, að gera sér mat úr engu. Ekki síst á þennan hátt er Lúkas hinn íslenski Lassie. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Steingrímsson Mest lesið Kæru smiðir, hárgreiðslufólk og píparar! Víðir Reynisson Skoðun Inngilding – nýyrði sem enginn skilur? Miriam Petra Ómarsdóttir Awad Skoðun Að sætta sig við brot á samkomulagi eða ekki Jón Ágúst Eyjólfsson Skoðun Vantar fleiri lyftara í heilbrigðiskerfið? Ragna Sigurðardóttir Skoðun Afhendum raunverulegum eigendum hlut sinn í Íslandsbanka til jafns Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Skoðun Vilja miklu stærra bákn Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Geðheilbrigðismál og landsbyggðin Eydís Ásbjörnsdóttir Skoðun Er píparinn þinn skattsvikari? Kristinn Karl Brynjarsson Skoðun Kosningar og ,ehf gatið‘ Róbert Farestveit Skoðun Hvenær á að skattleggja lífeyrissjóðsgreiðslur? Ögmundur Jónasson Skoðun
Í samræðu við félaga minn um daginn var mér bent á ákveðna samsvörun milli hundsins Lúkasar og annars hunds sem er talsvert frægari, en gekk í gegnum dálítið svipaðar hremmingar, en það er tíkin Lassie sem vafraði um Skotland og niður til Englands í leit að upphaflegum eiganda sínum, öðlingspilti í Yorkshire, eftir að hafa verið seld til illra manna af fjárhagslegum ástæðum. LASSIE var reyndar að mínu mati nokkuð fallegra dýr en Lúkas, svo ég segi það bara hreint út og vonandi án þess að móðga neinn. Einnig má segja að sagan af Lassie sé út frá ákveðnum skáldlegum sjónarmiðum nokkuð tilkomumeiri en sagan af Lúkasi. Lassie lendir í alls kyns hremmingum en kemst jafnan út úr þeim með því að beita yfirburðagáfum og óviðjafnanlegum styrk í mótlæti. Ást hennar á piltinum góða, sem og tryggð hennar og hollusta við þá bláfátæku og tandurhreinu barnssál - sem var túlkuð svo eftirminnilega í bíómyndinni Lassie Come Home - fékk jafnvel hina kaldrifjuðustu stigamenn til þess að fella tár. MEÐ nokkrum einföldum samanburðaræfingum má halda því fram að hin meinlegu ævintýri Lúkasar, með hliðsjón af hinni hárómantísku og fögru sögu af Lassie, dragi fram nokkuð athyglisverða þætti í íslenskri þjóðarsál og ekki síður nútímanum í heild sinni, sem halda má fram að einkennist af vissri hnignun. HÉR höfum við hund og pilt. Einn augljós munur í söguþræði er sá að í tilviki Lúkasar er hinn bláeygi piltur alls ekki elskaður af hundinum heldur þvert á móti. Í hinni íslensku sögu er pilturinn vændur um það að hafa troðið aðalsöguhetjunni í íþróttatösku og drepið hana með spörkum. Fíkn nútímans í ljótleika og harðneskju kemur hér skýrt fram. Hrópandi óréttlæti einkennir líka þessa frásögn og í stað hins trausta sambands pilts og hunds einkennist sagan af Lúkasi af miklum og djúpstæðum misskilningi pilts og hunds - nærðum af fordómum hins stygga og hleypidómafulla netsamfélags - sem gerir það að verkum að þeir fá aldrei að kynnast á uppbyggilegan og ástríkan máta. SVIPAÐ má segja um samband Lúkasar og eiganda hans, sem í hinni íslensku sögu er kona. Í stað þess að leita eiganda síns, eins og Lassie, þá forðaðist Lúkas eiganda sinn og í stað þess að beita klókindum til þess að komast í fang hans, þurfti eigandinn að beita klókindum til þess að fá hann í fang sitt. Þetta lýsir firringu. JAFNFRAMT er það skýrt einkenni á sögunni af Lúkasi, og lýsir þjóðarsálinni vel, að þegar öllu er á botninn hvolft gerðist ekki neitt í þeirri sögu annað en það að lítill hundur varð hræddur og hljóp upp í Hlíðarfjall. Það er einkum þetta sem gerir söguna svo íslenska enda hefur það löngum verið vitað að þessi eyþjóð hefur ákveðinn hæfileika til þess, í viðvarandi tíðindaleysi, að gera sér mat úr engu. Ekki síst á þennan hátt er Lúkas hinn íslenski Lassie.
Afhendum raunverulegum eigendum hlut sinn í Íslandsbanka til jafns Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Skoðun
Afhendum raunverulegum eigendum hlut sinn í Íslandsbanka til jafns Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Skoðun