Ölvaður ökumaður ók á allt að þreföldum hámarkshraða þegar hann reyndi að stinga lögregluna af á miðborgarsvæðinu í gærkvöldi. Þegar lögreglumenn eltu hann voru þeir á 85 kílómetra hraða en höfðu samt hvergi nærri við bíl mannsins. Hámarkshraðinn á þessu svæði er 30 kílómetrar.
Á gatnamótum Barónstígs og Laufásvegar náði hann ekki beygjunni og þeyttist niður göngutröppur og inn í almenningsgarð við gatnamótin, þaðan eftir Smáragötu uns hann lagði bílnum og tók til fótanna, en náðist skömmu síðar. Hann gistir nú fangageymslur.