Leikur Golden State Warriors og Toronto Raptors verður sýndur beint á NBA TV sjónvarpsstöðinni á Fjölvarpinu í nótt klukkan 3:30. Golden State hefur byrjað ágætlega undir stjórn Don Nelson, en hjá Toronto er fjölmenn sveit Evrópubúa enn að slípa sig inn í NBA deildina.
Annars verða nokkrir mjög athyglisverðir leikir í deildinni í nótt og þar ber hæst að efstu fjögur liðin í Vesturdeildinni eigast við innbyrðis. Utah tekur á móti LA Clippers á heimavelli sínum, en Utah er án Andrei Kirilenko sem er meiddur á ökkla. Utah hefur unnið 6 af 7 leikjum sínum í upphafi leiktíðar, en Clippers unnið 5 og tapað 1.
Þá verður uppgjör Texas-liðanna Houston og San Antonio væntanlega hörkuspennandi, en Houston hefur unnið 5 leiki og tapað 2 á meðan San Antonio hefur unnið 5 leiki og tapað aðeins 1.