Framherjinn Carmelo Antony hjá Denver Nuggets gaf í gær gamla háskólanum sínum 200 milljónir króna sem varið verður til byggingar nýrrar æfingaaðstöðu fyrir körfuboltalið skólans. Anthony varð háskólameistari með liðinu árið 2003 á sínu eina ári í háskóla áður en hann gaf kost á sér í NBA deildina.
Anthony skoraði 22 stig og hirti 10 fráköst að meðaltali á þessu eina ári með liði Syracuse, en liðið vann þá 30 leiki og tapaði aðeins 5 - og bar sigurorð af Kansas í úrslitaleik háskólaboltans.