Jose Mourinho segir að lið sitt sé að spila betur en nokkru sinni fyrr í Meistaradeild Evrópu og bendir á að þó samkeppnin sé hörð, hafi hans menn alla möguleika á að fara alla leið í keppninni að þessu sinni.
"Ég get ekki séð inn í framtíðina því það eru ensk, þýsk, spænsk og ítölsk lið á leið okkar að markmiðinu sem öll geta líka unnið sigur í kepnninni. Við erum hinsvegar að spila betur en nokkru sinni fyrr í Meistaradeildinni og mér fannst við spila mjög vel í leikjunum gegn Barcelona og Bremen. Levski Sofia leikurinn var auðveldur, en við þurftum að klára hann og gerðum það. Þá var síðasti leikur gegn Barcelona okkar besta frammistaða til þessa í keppninni," sagði Portúgalinn.