Liðlega sautján ára pilts bíður ökuleyfissvipting og 60 þúsund króna sekt eftir að hann var tekinn fyrir að hafa ekið á 158 kílómetra hraða á Vesturlandsvegi um helgina. Fram kemur á vef lögreglunnar í Reykjavík að lögreglan hafi verið með öflugt umferðareftirlit á veginum um helgina og voru fjölmargir ökumenn teknir fyrir hraðakstur þar. Alls voru 40 ökumenn teknir fyrir að aka á meira en 100 kílómetra hraða á hinum ýmsu götum í umdæmi lögreglunnar í Reykjavík um helgina.

