Innlent

SPRON hlýtur viðurkenningu Jafnréttisráðs

Fleiri konur en karlar eru stjórnendur hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis sem í gær hlaut jafnréttisviðurkenningu Jafnréttisráðs ársins 2006.

Það var Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra sem afhenti viðurkenninguna sem SPRON hlýtur fyrir áherslu á skýra jafnlaunastefnu en árlega eru laun í fyrirtækinu skoðuð til að gæta jafnréttis og formaður starfsmannafélagsins hefur heimild til að fá upplýsingar um launakjör til að koma í veg fyrir mismunun. Þá er árlega könnuð afstaða starfsmanna til stöðu jafnréttis.

Síðustu níu ár hefur verið unnið eftir virkri jafnréttisáætlun og er sérstök jafnréttisnefnd innan fyrirtækisins sem hefur það verkefni að fylgja henni eftir. Fleiri konur eru stjórnendur í SPRON en karlar, eða tuttugu og ein kona og nítján karlar, og hefur þeim fjölgað frá árinu 2004 en það ár tók Hildur Petersen við sem stjórnarformaður SPRON.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×