Innlent

Kaupþing banki langstærsta fyrirtæki landsins

MYND/GVA

Kaupþing banki er langstærsta fyrirtæki landsins samkvæmt úttekt Frjálsrar verslunar á 300 stærstu fyrirtækjum landsins. Velta bankans í fyrra nam ríflega 170 milljörðum króna og jókst um 130 prósent frá fyrra ári. KB banki var einnig í efsta sæti listans í fyrra.

Landsbankinn er annað stærsta fyrirtækið með 106 milljarða króna veltu en fyrirtækið fer upp um þrjú sæti milli ára. Í sætum þrjú til sex eru svo Avion, Icelandic Group, Bakkavör og Glitnir.

Þegar horft er til þess hvaða fyrirtæki hagnaðist mest fyrir skatta í fyrra trónir KB banki líka efst á listanum með 62 milljarða króna en þar á eftir kemur Exista með 46 milljarða. Mesta tapið reyndist hins vegar hjá Íslenskri erfðagreiningu eða fjórir milljarðar króna.

Bakkavör er stærsti íslenski vinnuveitandinn með á fimmtánda þúsund starfsmenn en þar á eftir kemur Actavis með rúmlega tíu þúsund starfsmenn. Eignarhaldsfélagið Samvinnutryggingar borgar hins vegar hæstu meðallaunin eða 13,2 milljónir króna á ári en þar á eftir kemur Straumur - Burðarás með ellefu milljónir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×