Innlent

Telja utanríkisstefnu Japana verða herskárri

Shinzo Abe verður næsti forsætisráðherra Japans en hann mun taka við stjórnartaumunum af Junichiro Koizumi í næstu viku. Búist er við að Abe muni reka herskárri utanríkisstefnu en forveri sinn.

Abe var kosinn formaður Frjálslynda lýðræðisflokksins á þingi hans í morgun með um tveimur þriðju hluta atkvæða. Taro Aso utanríkisráðherra varð í öðru sæti og Tanigaki fjármálaráðherra í því þriðja. Japanska þingið mun svo að öllum líkindum kjósa Abe forsætisráðherra í næstu viku þegar Junichiro Koizumi lætur af embætti sínu enda hefur flokkurinn þar töglin og hagldirnar.

Abe er 51 árs gamall og nái hann kjöri verður hann sá yngsti sem sest hefur í stól forsætisráðherra Japans. Hann verður jafnframt fyrsti forsætisráðherrann sem fæddur er eftir heimsstyrjöldina síðari. Faðir hans var utanríkisráðherra og afi forsætisráðherra þannig að honum eru stjórnmálin í blóð borin.

Abe er sagður íhaldssamur og því er reiknað með að hann muni reka svipaða stefnu í efnahagsmálum og Koizumi, núverandi forsætisráðherra. Hann er hins vegar sagður herskárri en forveri sinn, meðal annars í kjarnorkudeilunni við Norður-Kóreumenn. Abe vill ennfremur að Japanar hætti að biðjast afsökunar á illvirkjum hersins í styrjöldum fyrri ára og beri höfuðið í staðinn hátt.

Því er næsta víst að hann muni halda áfram heimsóknum að Yasukuni-helgidómnum umdeilda sem er nágrannaþjóðunum svo mikill þyrnir í augum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×