Viðskipti innlent

Excel Airways Group í 5. sæti í Bretlandi

Magnús Þorsteinsson, starfandi stjórnarformaður Avion Group.
Magnús Þorsteinsson, starfandi stjórnarformaður Avion Group. Mynd/E.Ól.

Excel Airways Group, dótturfélag Avion Group í Bretlandi, er fimmta stærsta ferðasamsteypa þar í landi samkvæmt opinberum tölum breskra flugmálayfirvalda sé miðað við seldar ferðir á þessu ári og því síðasta.

Í tilkynningu frá Avion Group segir að Excel Airways Group hafi fengið leyfi fyrir tæplega 40 prósentum fleiri farþegum á tímabilinu en árin 2004 og 2005. Með því hafi Excel Airways Group farið úr áttunda sæti í það fimmta eins og félagið stefndi að á listanum yfir stærstu ferðasamsteypur Bretlands.

Þá kemur fram að sala Freedom Flights, dótturfélags Excel Airways, jókst mest eða um 64 prósent frá fyrra ári. Freedom Flights selur eingöngu flugsæti í leiguflugum til ferðaskrifstofa innan Excel Airways Group og til annarra ferðaskrifstofa. Mun seldum flugsætum hjá Excel Airways Group fjölga enn frekar, bæði vegna aukinnar sölu hjá Freedom Flights og kaupanna á Kosmar Villa Holidays, sem flytur um 250 þúsund farþega á þessu ári.

Farþegum Excel Airways Group fjölgar um tæp 40 prósent á sama tíma og markaðurinn dregst saman um tæp 6 prósent. Á móti kom að tekjur ferðaskrifstofa á hverja selda ferða hafa aukist um 5,5 prósent, að því er fram kemur í tilkynningunni.

Stærsta ferðaskrifstofa Bretlands er TUI Group og þar á eftir kemur Thomas Cook Group, My Travel Group er í þriðja sæti og í fjórða er First Choice Holidays Group. Þessar fjórar stærstu ferðaskrifstofur drógu allar úr sætaframboði á árinu 2005/2006.

Áætlað er að Excel Airways Group, Star Airlines og Star Europe flytji um fimm milljónir farþega á árinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×