Grétar Rafn Steinsson var ánægður með leik íslenska liðsins í dag líkt og aðrir. Grétar segir liðið hafa gefið allt í leikinn í dag eins og á móti Spánverjum um daginn. Hann segir að næsta skref sé að fá dýrvitlausa áhorfendur á band liðsins hér heima gegn Dönum í næstu viku.
"Þetta var fínn leikur hjá okkur í dag. Við erum enn að venjast því að spila saman í öftustu vörn, ég, Hermann, Ívar og Indriði. Það hefur gengið ágætlega og samvinna okkar gekk sæmilega vel í dag. Við gáfum lítið frá okkur og þetta er tvímannalaust leikur til að byggja á.
Við erum að fara í gríðarlega erfiðan leik á miðvikudaginn þar sem allt verður gefið í verkefnið eins og í dag. Nú er algjört lykilatriði að fá góðan stuðning áhorfenda í leiknum við Dani, því við þurfum nauðsynlega á tólfta manninum að halda í þeim leik," sagði Grétar í samtali við Eirík Stefán Ásgeirsson, blaðamann á Fréttablaðinu eftir leikinn í dag.