Heimsmarkaðsverð á hráolíu lækkaði lítillega á helstu mörkuðum í dag í kjölfar frétta þess efnis að stjórnvöld í Íran væru reiðubúin til viðræðna um kjarnorkuáætlun sína. Íranar eiga yfir höfði sér viðskiptabann hætti þeir ekki auðgun úrans fyrir ágústlok.
Hráolíuverð lækkaði um 44 sent á markaði í New York í Bandaríkjunum og fór í 72,66 dali á tunnu en verð á Norðursjávarolíu lækkaði um 45 sent á markaði í Lundúnum í Bretlandi og fór í 72,79 dali á tunnu.
Orkumálaráðuneyti Bandaríkjanna birtir upplýsingar um olíubirgðir í landinu síðar í dag en flestir greiningaraðildar eru þess fullvissir um að birgðirnar hafi minnkað. Upplýsingarnar geta haft nokkur áhrif á heimsmarkaðsverð á olíu.