Erlent

Sjötug mamma

Mynd/Getty

Sextíu og tveggja ára kona varð í vikunni sú elsta til að eignast barn í sögu Bretlands. Konan hefur verið gagnrýnd harkalega í Bretlandi fyrir að ákveða að eignast barn á sjötugsaldri.

Patricia Rashbrook er sextíu og tveggja ára geðlæknir og væri undir eðlilegum kringumstæðum líklega frekar að fagna barnabarni, eða jafnvel barnabarnabarni. Hún fæddi í vikunni dreng sem vóg tæpar sjö merkur og heilsast honum vel að sögn lækna.

En það var engin tilviljun að barnið kom í heiminn. Rashbrook fór í frjósemisaðgerð til Rússlands í fyrra, sem kostaði nærri milljón íslenskra króna og eftir fimm tilraunir varð loks getnaður.

Ferlið allt hefur vakið mikla athygli í Bretlandi og vakið upp ýmiss konar spurningar. Þannig hafa alls kyns sérfræðingar gagnrýnt það harðlega að koma barni í heiminn við þessar aðstæður. Við fermingu verði foreldrarnir kannski komnir á elliheimili.

Sjálf lætur Rashbrook hins vegar engan bilbug á sér finna og blæs á alla gagnrýni. Hún og maður hennar geti veitt barninu allt það sem það þurfi og það fái uppeldi af bestu sort. En hvað sem uppeldinu líður er tilvikið alls ekkert einsdæmi í heiminum og ekki á leiðinni í Guinnessinn fræga, því að titillinn elsta móðir heims á ennþá Adriana Iliescu, sem í janúar í fyrra eignaðist dóttur á sextugasta og sjöunda aldursári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×