Innlent

Yfirlýsing frá Jóni Ásgeiri

Mynd/Pjetur

Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs, segir í yfirlýsingu að nýjasta ákæran í Baugsmálinu hafi beðið hnekki þegar dómari málsins óskaði eftir skýringum saksóknara á henni fyrir dómi í dag.

Í yfirlýsingunni segir Jón Ásgeir ennfremur að boð Ríkislögreglustjóra um frekari yfirheyrslur vegna meintra skattalagabrota hafi komið honum í opna skjöldu, þar sem hann heðfi haldið að þeim málum væri lokið og að nýjasta ákæran í Baugsmálinu, frá 31. mars 2006, væri sú síðasta sem hann ætti von á.

"Ég hélt að yfirvöld virtu þau mannréttindi hvers einstaklings að leysa ætti úr málum þeirra, sem eru til rannsóknar á sama tíma, í einu og sama málinu," segir Jón Ásgeir í yfirlýsingunni.

"Boðunin í gærkvöldi virðist mér vera tilraun af hálfu RLS til að dreifa athyglinni frá þeirri staðreynd að málflutningurinn í dag beindist nær allur að göllum á rannsókn og meðferð málsins hjá embættinu. Líklega eiga einhverjir hjá RLS erfitt með að horfast í augu við mistök sín í upphafi málsins þegar þeim var att út í þetta fen af óvildarmönnum mínum. Hvað eftir annað hefur embættið fengið ákúrur dómstóla fyrir vinnubrögð sín. Í stað þess að láta sér þetta að kenningu verða, hjakka þeir sífellt í sama farinu. Ég hef ítrekað haldið fram sakleysi mínu og geri það enn," segir Jón Ásgeir Jóhannesson í yfirlýsingu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×