Viðskipti innlent

Eigendur Pennans kaupa hlut í AN Office

Kristinn Vilbergsson, forstjóri Pennans, ásamt Gunnari Dungal, fyrrum eigandi fyrirtækisins. Myndin var tekin þegar eigendaskipti á Pennanum voru kynnt.
Kristinn Vilbergsson, forstjóri Pennans, ásamt Gunnari Dungal, fyrrum eigandi fyrirtækisins. Myndin var tekin þegar eigendaskipti á Pennanum voru kynnt. Mynd/GVA

Eigendur Pennans hafa fest kaup á 73 prósent hlut í lettneska rekstarvörufyrirtækinu AN Office, (Aigas Nams) sem er þriðja stærsta rekstrarfyrirtækið á Eystrasaltssvæðinu. Velta AN Office var um 1,5 milljarðar íslenskra króna á síðasta ári.

Kristinn Vilbergsson, forstjóri Pennans, segir lykilstjórnendur AN Office í höfuðstöðvunum í Lettlandi taka þátt í yfirtökunni og halda áfram í sínum störfum hjá fyrirtækinu. Haft er eftir honum að fyrirtækið sé vel rekið og góður byrjunarreitur fyrir Pennan til að sækja inn á nýja markaði."

Í tilkynningu frá Pennanum kemur fram að AN Office sé mjög vel þekkt fyrirtæki á sínu markaðssvæði og búi að breiðum og sterkum hópi viðskiptavina í atvinnulífinu í Eistlandi, Lettlandi og Litháen.

Fyrirtækið hefur um 150 birgja um alla Evrópu og munu sameiginleg innkaup og kaupsamningar Pennans og AN Office auka slagkraft beggja, þótt AN Office verði áfram rekið sem sjálfstæð eining. Rúmur þriðjungur af tekjum fyrirtækisins er frá sölu á netinu og fyrirtækið rekur auk þess verslanir og öflugar dreifingarmiðstöðvar í Eystrasaltslöndunum en meirihluti veltu fyrirtækisins er í Lettlandi, segir í tilkynningunni.

Hér heima starfrækir Penninn verslanir víða um land, undir eigin nafni, auk Eymundssonar, Griffils og bókabúðar Máls og menningar við Laugaveg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×