Innlent

Krefjast ekki afsagnar Jónasar

Jónas Garðarsson var í dag dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir manndráp af gáleysi. Tveir létust þegar bátur hans steytti á Skarfaskeri á Viðeyjarsundi í september.

Fjölskipaður dómur Héraðsdóms Reykjavíkur dæmdi Jónas Garðarsson, formann sjómannafélags Reykjavíkur, í þriggja ára fangelsi fyrir manndráp og líkamstjón af gáleysi. Jónas sagðist við aðalmeðferð málsins ekki hafa steytt bátnum á Skarfaskeri á Viðeyjarsundi heldur hafi Matthildur Harðardóttir verið við stjórnvölin, en hún og sambýlismaður hennar, Friðrik Ásgeir Hermannsson, létust í slysinu. Dómurinn tók ekki mark á vitnisburði Jónasar og segir hann einnig hafa gert sig sekan um að bera af sér sakir og reyna að koma ábyrgð yfir á þá, sem létust í sjóslysinu af völdum hans. Þá þykir dómnum ljóst að Matthildur hefði lifað af slysið hefði Jónas brugðist við með eðlilegum hætti. En á meðan hún var neðanþylja að huga að látnum sambýlismanni sínum stýrði Jónast bátnum af skerinu frá landi og beri hann því óskoraða ábyrgð á láti Matthildar.

Jónas sagði í samtali við NFS í dag að honum væri brugðið við dómniðurstöðuna og sagði dóminn harkalegann. Hann bjóst við að áfrýja dómnum til Hæstaréttar en vildi ráðfæra sig fyrst við verjanda sinn sem staddur er í útlöndum.

Birgir Hólm Björgvinsson, stjórnarmaður hjá Sjómannafélagi Reykjavíkur, sagðist ekki sjá ástæðu til þess að krefjast afsagnar Jónasar hjá félaginu. Hann telur dóminn ekki geta staðist því engin fordæmi séu fyrir slíkri refsingu. Hann segir félagið ætlað að bíða niðurstöðu Hæstaréttar þetta væri bara Héraðsdómur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×