Erlent

6200 fórust í jarðskjálftanum á Jövu

Susilo Bambang Yudhoyono, forseti Indónesíu.
Susilo Bambang Yudhoyono, forseti Indónesíu. MYND/AP

Nú er ljóst að rúmlega 6200 manns fórust í jarðskjálftanum sem reið yfir indónesísku eyjuna Jövu á laugardaginn. Sameinuðu þjóðirnar segja neyðargögn hafa borist á flesta þá staði þar sem aðstoðar er þörf.

Samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum á svæðinu slösuðust minnst 30 þúsund manns og rúmlega 105 þúsund heimili eru rústir einar eða mikið skemmd. Þarf af leiðandi eru mörg hundruð þúsund íbúar á eyjunni heimilislausir. Óttast er að fleiri eigi eftir að finnast látnir eða látast af sárum sínum og talið að fleiri reynist heimilislausir þegar betur verður að gáð.

Talsmaður Sameinuðu þjóðanna segir hjálpargögn og aðstoð hafa borist á flest svæði á eyjunni. Sjúkrahús eru yfirfull og læknar eiga fullt í fangi með að sinna slösuðum. Þó Sameinuðu þjóðirnar segir hjálpargögn berast á flest svæði hefur veður hamlað flutningum á einhver svæði. Íbúar þar hafa því magir hverjir þurft að hýrast undir berum himni í fimm nætur.

Þróunarbankinn í Asíu hefur heitið jafnvirði rúmlega fjögurra miljarða íslenskra króna til endurbyggingar á svæðinu. Indónesísk stjórnvöld hafa, til að byrja með, heitið tólf kílóum af hrísgrjónum á hverja fjölskyldu og jafnvirði rúmlega fimmtán hundruð íslenskra króna handa hverjum þeim sem lifði af hamfarirnar til að kaupa föt og húsbúnað og aðrar nauðsynjavörur.

Susilo Bambang Yudhoyono, forseti Indónesíu, hefur varið fjórum síðustu dögum á þeim svæðum sem verst urðu úti í hamförunum. Hún segist á þeim tíma hafa fullvissað sig um að björgunarstarf gengi sem skildi og endurbygging væri að hefjast. Þess vegna væri henni óhætt að snúa aftur til höfuðborgarinnar, Jakarta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×