Viðskipti innlent

Eimskip kaupir Farmaleiðir

P/F Heri Thomsen, dótturfélag Eimskips í Færeyjum, hefur keypt Farmaleiðir, sem verið hefur landflutningahluti Strandfaraskipa. Strandfaraskip er í eigu færeyska ríkisins og hefur sinnt vöru- og fólksflutningum á sjó og landi í Færeyjum. Sala Farmaleiða er stærsta einkavæðingaverkefni Færeyinga til þessa.

Í tilkynningu frá Eimskipum kemur fram að rekstur Heri Thomsen og Farmaleiða verður sameinaður undir nafni Farmaleiða sem í kjölfarið verður stærsta fyrirtæki í Færeyjum á sviði landflutninga. „Farmaleiðir bjóða heildarþjónustu í gámaflutningum, heilfarmaflutningum, flutningum á stykkjavöru, kæli- og frystiflutningum, fiskflutningum, saltflutningum o.fl.," segir í tilkynningunni.

Velta Farmaleiða nam 240 milljónum íslenskra króna á síðasta ári. Það rekur 19 flutninga- og sendibíla og 6 lyftara auk fjölda flutningavagna, gáma og tanka og hjá því starfar 21 starfsmaður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×