Hráolía lækkaði í verði á helstu mörkuðum í dag m.a. vegna upplýsinga um að olíubirgðir hafi aukist í Bandaríkjunum og komi í veg fyrir olíuskort vegna minni olíuframleiðslu í Nígeríu.
Verð á hráolíu, sem afhent verður í næsta mánuði, lækkaði um 58 sent og fór í 59,84 dollara á mörkuðum í Bandaríkjunum en verð á Brent Norðursjávarolía lækkaði um 10 sent og endaði í 61,24 dollurum á tunnu í kauphöllinni í Lundúnum í Bretlandi í dag.
Nýjustu upplýsingar um olíubirgðir í Bandaríkjunum benda til að þær hafi ekki verið meiri í landinu síðan í maí árið 1999 og er búist við að þær muni aukast enn frekar á næstunni.
Skæruliðar í Nígeríu sprengdu olíuleiðslu ítalska olíufyrirtækisins Eni SpA Agip Oil Co. við ósa Nígerfljóts á föstudag í síðustu viku og greindi fyrirtækið frá því í gær að framleiðsla hafi dregist saman um 13.000 tunnur af olíu á dag á meðan viðgerð stendur yfir.