Leikur Memphis Grizzlies og Boston Celtics verður sjónvarpsleikurinn á NBA TV á Digital Ísland í kvöld og hefst hann klukkan eitt eftir miðnætti. Boston hefur verið á ágætis spretti undir stjórn Paul Pierce undanfarið og er ekki langt undan sæti í úrslitakeppninni, en Memphis hefur hinsvegar tapað þremur af síðustu fjórum leikjum sínum.
Paul Pierce er allt í öllu í liði Boston og auk þess að vera stiga-, frákasta- og stoðsendingahæstur í liðinu, hefur hann skorað ófáar sigurkörfurnar fyrir liðið á undanförnum vikum. Boston hefur unnið tvo síðustu leiki þessara liða og sjö af síðustu níu.