Dallas Mavericks tekur á móti Cleveland Cavaliers í NBA deildinni í nótt og burtséð frá því hvernig leikurinn fer, er Avery Johnson þjálfari Dallas búinn að skrá nafn sitt á spjöld sögunnar. Johnson hefur náð bestum árangri allra þjálfara í sögu deildarinnar í fyrstu 82 leikjum sínum sem aðalþjálfari.
Undir stjórn hins unga Johnson, hefur Dallas unnið 65 leiki og tapað aðeins 16 síðan hann tók við seint á síðasta tímabili. Þar með er ljóst að þó Dallas tapi fyrir Cleveland í nótt, mun árangur Johnson alltaf toppa árangur Paul Westphal hjá Phoenix árið 1992-3 um minnst þrjá leiki.
"Ég vissi að Avery yrði góður þjálfari og var ekki einn um þá skoðun," sagði Donnie Walsh, forseti Dallas. "Ég hinsvegar hefði aldrei geta gert mér í hugarlund að hann næði svona góðum árangri."
Dallas er nú í harðri baráttu við meistara San Antonio um besta vinningshlutfallið í Vesturdeildinni, en vegna breytts fyrirkomulags um uppröðun liða í úrslitakeppninni, er baráttan um efsta sætið enn harðari en áður. Þó Dallas verði með næst besta árangurinn í Vesturdeildinni á eftir San Antonio, verður liðið aðeins fjórða lið inn í úrslitakeppnina ef það nær ekki toppsætinu í riðli sínum og því er til mikils að vinna fram á vorið.