Hinn smáfríði miðherji LA Clippers, Chris Kaman, leiddi lið sitt til sigurs 95-87 gegn Minnesota í sjónvarpsleiknum á NBA TV í nótt. Kaman skoraði 24 stig og hirti 23 fráköst fyrir Clippers en Ricky Davis skoraði 20 stig fyrir Minnesota.
Indiana vann öruggan sigur á Orlando 97-83. Nýliðinn Danny Granger skoraði 21 stig og hirti 12 fráköst fyrir Indiana, en Dwight Howard skoraði 22 stig og hirti 11 fráköst fyrir Orlando.
Denver vann auðveldan útisigur á New York 108-96. Carmelo Anthony skoraði 35 stig fyrir Denver, en Stephon Marbury skoraði 25 stig fyrir New York.
Milwaukee afstýrði lengstu taphrinu sinni í sex ár þegar liðið marði sigur á Atlanta Hawks 88-87. Bobby Simmons skoraði 18 stig fyrir Milwaukee, en Josh Smith skoraði 25 stig fyrir Atlanta, Salim Stoudamire skoraði 21 og Joe Johnson skoraði 9 stig, hirti 9 fráköst og gaf 17 stoðsendingar.
New Jersey lagði Houston 90-77. Yao Ming skoraði 36 stig og hirti 9 fráköst fyrir Houston, en Vince Carter skoraði 29 stig fyrir New Jersey og Jason Kidd náði enn einni þrennunni með 11 stigum, 10 fráköstum og 10 stoðsendingum.