Viðskipti innlent

Hagnaður FL Group 17,3 milljarðar

Hagnaður FL Group fyrir skatta árið 2005 var rúmir 20,5 milljarðar króna samanborið við rúma 4,3 milljarða krónur árið áður. Eftir skatta var var hagnaður fyrirtækisins tæpir 17,3 milljarðar króna, samanborið við tæpa 3,6 milljarða króna árið áður. Þetta er besta afkoma fyrirtækisins fram til þessa.

Arðsemi eiginfjár nam 55,2% á tímabilinu. Afkoma af fjárfestingastarfsemi nam tæpum 18,4 milljörðum króna fyrir skatta, og þar af var hagnaður á fjórða ársfjórðungi 13,3 milljarðar króna, að því er fram kemur í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Árið 2005 markaði tímamót í sögu FL Group, þar sem 44 milljarða króna hlutafjáraukningu bar hæst. En auk þess sem gengið var frá kaupum á Bláfugli og Flugflutningum og var samningur undirritaður um kaup á lággjaldafélaginu Sterling.

Í tilkynningunni er haft eftir Hannesi Smárasyni, forstjóra FL Group, sem segir að árangurinn endurspeglist af þeim breytingum sem gerðar hafi verið á starfsemi fyrirtækisins. „Með hlutafjárútboðinu í nóvember síðastliðnum var stigið mikilvægt skref í að gera FL Group að öflugu fjárfestingafélagi og er stærsti hluti afkomunnar nú af fjárfestingastarfsemi félagsins. Vel hefur tekist til við að framkvæma breytingarnar og byggja upp öflugan hóp starfsmanna sem nær árangri. Að sama skapi var afkoma rekstrarfélaganna góð sem er mjög ánægjulegt í ljósi þess að eldsneytisverð hefur verið mjög hátt og gengi íslensku krónunnar óhagstætt. Rekstrarfélögin hafa því sýnt mikinn styrk í að aðlaga reksturinn hratt og örugglega að breytilegum ytri aðstæðum," segir Hannes.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×