Leikur Dallas Mavericks og Portland Trailblazers verður sýndur í beinni útsendingu á NBA TV á Digital Ísland í nótt klukkan 1:30 eftir miðnætti. Dallas hefur tapað tveimur af síðustu þremur leikjum sínum eftir að hafa tekið 19-1 rispu á dögunum og líta leikmenn liðsins væntanlega á leikinn við Portland sem kjörið tækifæri til að rétta úr kútnum.
Dallas hefur unnið 46 leiki og tapað aðeins 13, en Portland er á hinum enda töflunnar með 19 sigra og 40 töp. Leikur kvöldsins fer fram á heimavelli Dallas, en liðin mætast svo aftur í Portland á fimmtudagskvöldið.
Dirk Nowitzki er stigahæsti leikmaður Dallas með 25,4 stig að meðaltali í leik, en Zach Randolph er stigahæsti leikmaður hins unga liðs Portland með 17,9 stig. Dallas hefur unnið síðustu átta viðureignir liðanna, þá síðustu í endaðan janúar 95-89 eftir framlengdan leik.