Til hægðarauka fyrir viðskiptavini afgreiðslunnar munu einungis bankanúmer þeirra breytast en öll reikningsnúmer haldast óbreytt. Sparisjóðurinn mun senda viðskiptavinum nánari upplýsingar um framkvæmdina á næstu dögum.
Engar uppsagnir starfsmanna í tengslum við söluna eru fyrirhugaðar og hefur núverandi starfsmönnum Landsbankans í Sandgerði verið boðin störf hjá Sparisjóðnum.
Þetta er þriðja útibú Landsbankans sem er selt í þessari viku. Á mánudag var tilkynnt að bankinn hefði selt Sparisjóði Þórshafnar afgreiðslur sínar á Kópaskeri og Raufarhöfn. Ekki hefur náðst í bankastjóra Landsbankans og því hafa ekki fengist svör við því hvort búast megi við sölu fleiri útibúa á landsbyggðinni.