Verðbólga nánast óbreytt

Vísitala neysluverðs lækkaði um 0,04 prósent milli október- og nóvembermánaða. Það var í takt við spár greiningardeilda bankanna sem gerðu ráð fyrir engri breytingu vísitölunnar til 0,1 prósents lækkunar. Það sem helst virkaði til lækkunar vísitölunnar var að verð á bensíni og dísilolíu lækkaði um 3,5 prósent vegna gengislækkunar krónunnar og lægra heimsmarkaðsverðs á eldsneyti. Á móti kom að íbúðarkostnaður hækkaði um 0,6 prósent sem kom að mestu til vegna hærri vaxta. Verðbólgan mælist nú 7,3 prósent á ársgrundvelli og eykst úr 7,2 prósentum í október. Það er því enn langt bil milli raunveruleikans og markmiðs Seðlabankans upp á 2,5 prósenta verðbólgu. Greiningardeild Glitnis segir allt benda til þess að bólgan hafi náð hámarki og úr henni muni draga hratt á næstunni. Telur hún jafnframt líklegt að stýrivextir Seðlabankans hækki ekki frekar nema gengi krónunnar komi til með að gefa skyndilega mikið eftir, sem virðist ólíklegt sem stendur.