Skoðun

Enn ein þrasnefndin

Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri grænna, lagði það til í sjónvarpsfréttum um daginn að sett yrði á legg opinber "sannleiksnefnd" sem myndi rannsaka hvernig lögregla fylgdist með þeim hópum sem höfðu í hyggju að kollvarpa lýðræðinu á Íslandi. Steingrímur lagði til að nefndin yrði þannig skipuð að hún "væri hafin yfir alla tortryggni". Þetta hljómar allt mjög vel en er því miður augljós snara sem stjórnarandstöðuþingmaður leggur í þeirri von að ríkisstjórnin láti glepjast.

Steingrímur vonar að með þessu nái hann að hamast í þrígang á stjórnarflokkunum. Fyrst myndi hann gagnrýna skipunarbréf og verkefni nefndarinnar. Svo fengi skipan nefndarmanna, sama hvaða menn yrðu fyrir valinu, hæfilegan skammt af gagnrýni. Að lokum yrði svo niðurstaða nefndarinnar, sama hver hún nú yrði, tilefni utandagskrárumræðu með tilheyrandi stóryrðum. Helsti gallinn á þessari tillögu Steingríms er þó ekki aðeins að hann vilji gera pólitískt hanaat úr málinu heldur hitt að það er ekki heppilegt að láta ríkið rannsaka sjálft sig í þessum efnum. Það er miklu frekar verkefni sjálfstæðra fræðimanna eins og grein Þórs Whitehead í tímaritinu Þjóðmálum er gott dæmi um.

Geir H. Haarde forsætisráðherra hefur einmitt lýst því yfir að gögn um þessi mál verði gerð opinber eftir því sem kostur er og hefur sett af stað starf sem miðar að því. Þá munu fræðimenn geta lagt mat sitt á hvað þarna hefur farið fram.

Steingrímur má þó eiga það að hann er eins og oft áður samkvæmur sjálfum sér. Ef hann sér einhver færi á nýju viðfangsefni í þjóðfélaginu er hann fljótur að leggja til að nefnd á vegum ríkisins taki það að sér. Jafnvel sjálfsagðir hlutir eins og að segja sannleikann verða honum tilefni til að stinga upp á opinberri nefnd.




Skoðun

Sjá meira


×