Viðskipti innlent

Innan OMX fá fyrirtækin aukna athygli og fleiri tækifæri

Kauphöllin í Kaupmannahöfn Búast má við að Kauphöll Íslands fái um áramót merki OMX sett upp við innganginn, líkt og sjá má við inngang Kauphallarinnar í Kaupmannahöfn.
Kauphöllin í Kaupmannahöfn Búast má við að Kauphöll Íslands fái um áramót merki OMX sett upp við innganginn, líkt og sjá má við inngang Kauphallarinnar í Kaupmannahöfn. Mynd/OMX Kaupmannahöfn

Almennt virðist mikil ánægja ríkja með fyrirhuguð kaup OMX, sem rekur kauphallir á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum, á Eignarhaldsfélaginu Verðbréfaþingi, sem á og rekur Kauphöll Íslands.

Talað er um að þarna hafi verið stigið tímabært skref í að þróa markaðinn hér, enda smæð hans jafnvel talin hafa verið farin að hamla stærstu fyrirtækjunum sem á hann eru skráð. Þá hafa forsvarsmenn fyrirtækja talað um að hér hafi skort á áhuga erlendra fjárfesta og greiningardeilda stórra erlendra banka.

Þrjú fyrirtæki Kauphallarinnar rata inn á lista yfir 50 stærstu félög innan OMX, Kaupþing banki í 22. sæti, Glitnir banki í 47. sæti og Landsbanki Íslands í 48. sæti. Þá er ekki langt í tvö næstu fyrirtæki Exista og Actavis, markaðsvirði þeirra er nú um 255 og 226 milljarðar króna, en finnska fyrirtækið Kesko, sem er í 50. sæti á listanum, er 279 milljarða króna virði.

Ávinningur fyrir alla
Ys og þýs í OMX Kauphöllinni dönsku Margir telja heppilegt að gengið hafi verið inn í OMX samstarfið áður en til frekari samruna stærri kauphalla kunni að koma. Er talið óvíst að kauphöll af þeirri stærðargráðu sem yrði til við samruna Lundúnakauphallarinnar og OMX eða í samstarfi við Nasdaq hefði mikinn áhuga á því að leggja í vinnu við að koma á samstarfi við jafnlitla kauphöll og sú íslenska er. Mynd/OMX Kaupmannahöfn

Gengið var frá viljayfirlýsingu um kaupin í síðustu viku en formleg undirritun á að verða í lok næsta mánaðar. Stefnt er að því að sameiningin taki gildi um áramót og íslensk fyrirtæki verði þá hluti af Norræna listanum. Í kjölfarið eyst sýnileiki fyrirtækjanna til muna og um leið verður markaðsupplýsingum héðan dreift með öðrum upplýsingum frá OMX og íslensk bréf verða hluti af OMX vísitölunum. Vísitölur fyrir íslensk bréf endurspegla svo áfram þróunina í kauphöllinni hér.

Kaupverðið nemur um þremur milljörðum króna, en hluthöfum í eignarhaldsfélaginu Verðbréfaþingi býðst að fá nýútgefna 2,07 milljón hluti í OMX í skiptum fyrir hlut sinn í Verðbréfaþingi. Verðmæti bréfanna er metið á 2.450 milljónir króna. Að auki fá hluthafar greitt handbært fé og verðbréf í eigu Verðbréfaþings að verðmæti 570 milljónir króna.

Eftir kaupin lúta Kauphöllin og Verðbréfaskráning áfram íslenskum lögum og eftirliti yfirvalda. Þá er kálið ekki alveg sopið því kaupin eru háð áreiðanleikakönnun, undirritun samnings um sameiningu, samþykki eftirlitsstofnana og samþykki aukaaðalfundar OMX. Ekki eru þó taldar miklar líkur á að snurða hlaupi á þráðinn úr þessu.

Sameining OMX og Kauphallarinnar er sögð munu hafa ávinning í för með sér fyrir alla sem að málum koma um leið og stuðlað sé að enn frekari samþættingu norræns verðbréfamarkaðar. Fyrir rekur OMX kauphallir í Kaupmannahöfn, Stokkhólmi, Helsinki, Ríga, Tallin og Vilníus. Kauphöll Íslands sér svo um rekstur VMF, kauphallarinnar í Færeyjum, og því í raun ekki nema Kauphöllin í Osló í Noregi sem stendur stök fyrir þetta samstarf kauphalla Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna. Þegar tilkynnt var um kaupin var haft eftir Jukku Ruuska, forstjóra kauphallararms OMX, að félagið væri ánægt með að dýpka samstarfið enn frekar og það byði markaðinn hér velkominn inn í OMX. "Við erum að skapa samþættan norrænan markað til að auka viðskipti milli Norðurlandanna og gera hann meira aðlaðandi í augum erlendra fjárfesta," sagði hann.

Áframhaldandi samhæfing
Kauphöll Íslands Um áramót er stefnt að því að Kauphöllin taki að starfa innan OMX samstarfsins. Mynd/GVA

Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar, segir það sem snýr að skráðum fyrirtækjum, ramma um upplýsingagjöf, markaðinn og grundvallaratriði ekki breytast svo mjög við samrunann þar sem viðskiptakerfi og reglur kauphallaraðila hafi þegar verið samræmd. Hann segist fagna tækifærinu til að taka þátt í frekari samþættingu verðbréfamarkaða á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum og segir þróunina bæði skráðum fyrirtækjum og fjárfestum til góðs; skráð fyrirtæki verði sýnilegri og fleiri erlendir aðilar taki þátt á íslenskum markaði og auki þannig seljanleika bréfa.

"Þarna liggja tækifæri og jafnframt ljóst að auðveldara ætti að vera að fá erlenda greiningaraðila til að fjalla um íslensk fyrirtæki, sem verið hefur erfitt hingað til."

Þá segir Þórður sóknarfæri felast í því að auðveldara verði að fá erlenda banka og viðskiptastofnanir til að eiga viðskipti hér, auk þess sem kaup íslenskra fjárfesta erlendis verði auðveldari. Í OMX samstarfinu felst enda aðgangur að sameiginlegu neti miðlara sem felur í sér möguleika á fleiri fjaraðilum. Þá skiptir einnig máli samhæfing á reglum og skráningarkröfum þegar samstarfinu vindur fram. Verðbréfaskráning Íslands starfar enda áfram náið með Kauphöllinni til að auðvelda sameiginlega vöruþróun og draga úr rekstrarkostnaði. Sameiningin er þannig sögð munu styðja bæði OMX og Kauphöllina í þeirri viðleitni að samþætta norræna greiðslumiðlun og uppgjör.

Lengi verið áhugi á OMX

Þórður segir helsta áhyggjuefnið hafa verið hvernig smærri fyrirtækjum myndi reiða af og segir þau þurfa að huga vel að sínum málum. "Ég held hins vegar að þau þurfi ekki að týnast í fjöldanum þótt auðvitað sé það dálítið undir þeim sjálfum komið," segir hann en fyrirtæki eru flokkuð eftir stærð í þrjá flokka.

"Þau fara á lista sem mjög margir horfa á, en hann er auðvitað langur. Þess vegna þurfa þau að hafa fyrir því að vekja á sér athygli. Þetta er því ákveðin áskorun fyrir þau, en alls ekki hægt að gefa sér að lífið verði þeim erfiðara, heldur tel ég þvert á móti, ef þau taka vel á sínum málum, að þarna séu aukin tækifæri fyrir þau líka." Þórður segir alveg ljóst að stærri fyrirtækin sem skráð eru í Kauphöllina hafi um nokkurt skeið verið áhugasöm um að Kauphöllin myndi sameinast OMX. "Og kannski ekki nema von því sennilega fara sex eða sjö fyrirtæki inn í flokk stórra fyrirtækja á Norðurlöndunum og af því er augljóslega mikill ávinningur fyrir þau og gefur þeim mjög góða viðspyrnu til að koma sér á framfæri á erlendum mörkuðum, Norðurlöndum og víðar."

Friðrik Jóhannsson, stjórnarformaður Kauphallar Íslands og forstjóri Straums-Burðaráss fjárfestingabanka, segir ljóst að með sameiningunni aukist sýnileiki fyrirtækja og möguleikar á að fá til liðs við sig erlenda fjárfesta. Sömuleiðis segir hann hugsanlegt að ákveðin tækifæri felist í því fyrir stærstu fyrirtækin að komast inn í vísitölur OMX, því þar fjárfesti gjarnan stórir sjóðir sem ella hefðu ekki keypt í þessum fyrirtækjum. "Ég lít á þetta sem mikið framfaramál fyrir skráð félög," segir hann, en uppi hafa verið vangaveltur um að stærstu félögin myndu jafnvel færa skráningu sína annað verði ekki af auknu samstarfi. "Þetta styrkir félögin og viðskipti með hlutabréfin."

Rétt tímasetning samruna

Ingólfur Helgason, forstjóri Kaupþings banka á Íslandi, stærsta fyrirtækis Kauphallar Íslands, segir samrunann við OMX afar jákvæða frétt fyrir innlendan fjármálamarkað í heild sem haft geti víðtæk áhrif til hins betra. "Ef við hugsum um skráð félög og ekki síður fjárfestana, þá eru menn allt í einu orðnir hluti af mjög stórum norrænum fjármálamarkaði í kauphöll sem orðin er nafn í þessum kauphallarheimi með stór nöfn innanborðs. Allt í einu, með þessari einu aðgerð, er því kominn bæði aukinn sýnileiki og seljanleiki, nokkuð sem menn hafa árum saman verið að reyna að koma á."

Ingólfur segir að til viðbótar hafi fyrirtækin, eftir því hvar þau lendi í atvinnugreina- og stærðarflokkun, möguleika á að komast inn í vísitölur sem OMX stendur að án þess að missa sérkenni heimamarkaðarins. Þá gerist einnig um leið og fyrirtæki lenda inni í þessum vísitölum að erlendir greiningaraðilar taka að fjalla um þau, nokkuð sem sáralítið hefur verið um til þessa. Sömuleiðis ýtir samræming sem í samstarfi felst undir fjárfestingar milli landa, enda er rutt úr vegi tæknihindrunum sem annars geta byggst upp milli landa í ólíkum viðskiptakerfum.

Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbankans, segir bankann hafa litið svo á að sameiningin við OMX geti falið í sér tækifæri með auknum sýnileika á stórum markaði og það eigi í raun við um öll fyrirtækin sem skráð séu í Kauphöllina hér. "Svo virðist líka tilhneigingin í þá átt að við förum ekki bara þarna inn heldur gæti OMX jafnvel orðið hluti af stærri heild. Þá er betra að vera kominn inn í þetta fremur en ætla að koma eftir á," segir hann og telur jafnvel að stærri kauphöll, með OMX innanborðs, hefði haft takmarkaðan áhuga á að taka inn Kauphöll Íslands. "Við lítum því svo á að sameiningin nú sé mjög jákvæð."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×