Listamaðurinn og sundkappinn Benedikt Lafleur þurfti að hætta sundi í öðrum áfanga hringsunds síns um Reykjavík í gær. Að sögn hans var myrkur og skyggni farið að hamla för hans og björgunarsveitarmenn gátu ekki tryggt öryggi hans lengur.
Benedikt heldur til Englands til æfinga á þriðjudaginn fyrir þreksund þvert yfir Ermarsundið. „Sundin tvö í gær veittu mér ómetanlega reynslu og í raun nýja þekkingu sem mun reynast mér dýrmæt í Ermarsundinu. Ég fer því reynslunni ríkari og mun sáttari en áður út í slaginn við Ermarsundið,“ segir hann.