Tveir ökumenn stungu lögregluna í Keflavík af í fyrrinótt. Þeir mældust báðir á of miklum hraða en virtu hvorugur stöðvunarmerki lögreglu.
Fyrri ökumaðurinn ók dökkgrárri BMW skutbifreið og mældist á 128 kílómetra hraða. Sá síðari ók rauðu vélhjóli og mældist á 148 kílómetra hraða.
Báðir ökumennirnir hurfu sjónum lögreglumanna þegar þeir óku inn í Hafnarfjörð. Á veginum þar sem þeir óku inn í bæinn er 70 kílómetra hámarkshraði og að sögn lögreglu höfðu ökumennirnir þá frekar aukið hraðann en hitt frá því að ökuhraðinn var mældur.