Erlent

Slagsmál brutust út á Úkraínuþingi

Gripinn hálstaki Til stympinga kom á Úkraínuþingi í gær vegna deilna um stjórnarmyndun. Enginn meiddist þó alvarlega en einn þingmanna hlaut blóðnasir.
Gripinn hálstaki Til stympinga kom á Úkraínuþingi í gær vegna deilna um stjórnarmyndun. Enginn meiddist þó alvarlega en einn þingmanna hlaut blóðnasir. MYND/AP

Slagsmál brutust út á þinginu í Úkraínu í gær þegar Viktor Júsjenko forseti var beðinn um að tilnefna helsta andstæðing sinn, Viktor Janúkovitsj, í embætti forsætisráðherra.

Andstæðingar Júsjenkos hafa boðað víðtækar mótmælaaðgerðir til þess að hindra að hann komist til valda á ný. Fyrir utan þinghúsið hafa nú hópar mótmælenda sett upp tjaldbúðir og búa sig undir langa baráttu, ekki ósvipað „appelsínugulu“ byltingunni haustið 2004 þegar Júsjenko fór í forystu fyrir andstæðingum Janúkovitsj, sem þá var forseti.

Allt frá þingkosningunum í mars síðastliðnum hafa flokkarnir á þingi átt í mestu vandræðum með að koma sér saman um starfhæfa meirihlutastjórn. Héraðaflokkurinn, sem er flokkur Janúkovitsj, náði í síðustu viku samkomulagi um stjórnarmyndun við tvo flokka, Kommúnistaflokkinn og Sósíalistaflokkinn, en sá síðarnefndi hafði áður lofað þátttöku í „appelsínugulri“ stjórn með Okkar Úkraínu, sem er flokkur Júsjenkos, og Flokki Júlíu Tímosjenko, sem átti að verða forsætisráðherra í þeirri stjórn.

Helsta ágreiningsefnið snýst um það hvort Úkraína eigi að halla sér meir að Rússlandi, eins og Janúko­vitsj fyrrverandi forseti vill, eða sækjast eftir nánari tengslum við Evrópusambandið og Nató eins og Júsjenko forseti stefnir að.

Í austanverðri Úkraínu, þar sem iðnvæðing er mikil, hallast menn frekar að Rússlandi, enda tala flestir íbúar austurhlutans rússnesku. Í vesturhluta landsins talar fólk hins vegar úkraínsku og vill nánari tengsl við Evrópu til þess að vega upp á móti sögulega sterkum áhrifum frá Rússlandi.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×